Tilnefning til menningarverðlauna DV

Áningnarstaður við Saxhól í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli var á dögunum tilnefndur til menningarverðlauna DV á sviði arkítektúrs.

Hljómar tilnefningin svona:

Viðkomu- og útsýnisstaðurinn Saxhóll í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli er vinsæll á meðal ferðamanna. Hóllinn er 45 metra hár keilulaga gígur með lausu lítt grónu gjalli í hlíðum. Með sívaxandi fjölda gesta hafði myndast ákveðið spor í spírallaga sneiðingu upp hólinn og var tekið að skríða til og breikka.
Landslagsarkitektastofan Landslag var fengin til þess að hanna tröppustíg í þeim tilgangi að tryggja öryggi gesta og um leið takmarka svæði á hólnum sem verður fyrir ágangi. Tröppustígurinn er úr svörtu stáli sem ryðgaði fljótlega og samlagaðist litbrigðum hólsins. Stígurinn er lagður eftir sárinu sem komið var í hólinn og er settur saman úr tveimur bogum sem mætast á hvíldarpalli á miðri leið.

Inngripið er ekki mikið en það er sterkt í einfaldleika sínum. Það þjónar tilgangi sínum vel og fellur einstaklega vel og ljóðrænt inn í landslagið. Tröppustígurinn er gott dæmi um það hvernig leysa má aðgengi að áningarstöðum ferðamanna á einfaldan og fágaðan hátt en um leið bera virðingu fyrir náttúrunni.

Myndir af verkinu má sjá hér.