Nýr Skerjafjörður

Tillaga Ask arkitekta, Eflu og Landslags um framtíðaruppbyggingu í Nýja Skerjafirði var hlutskörpust í hugmyndaleit um tillögur að byggð á svæðinu.

Reykjavíkurborg stóð fyrir lokaðri hugmyndaleit í sumar um framtíðaruppbyggingu á þróunarreit Þ5 Nýja Skerjafirði, sem er skilgreindur í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.

Í aðalskipulaginu hefur verið gert ráð fyrir að á svæðinu muni rísa íbúðir og er gerð rammaskipulags fyrsta skrefið í átt að því að framfylgja þeirri stefnu. Þróunarreiturinn liggur að núverandi byggð í Skerjafirði og afmarkast af götunni Skeljanesi til vesturs og af öryggissvæði flugbrauta til norðurs og austurs. Svæðið hallar til suðurs í átt að Fossvogi og liggur vel við sól og vindáttum með stórkostlegu útsýni að sjó. Áhersla er lögð á vistvæna byggð sem tekur tillit til náttúru og nærliggjandi byggðar.

Tillaga ASK arkitekta, sem unnin var í samstarfi við Landslag og Eflu, var valin vinningstillaga í hugmyndaleitinni og mun því unnin frekar í átt að rammaskipulagi.

Tillagan þótti skara fram úr vegna aðlaðandi byggðarmynsturs með fjölbreyttar húsagerðir og grænt net opinna svæða og gönguleiðir í gegnum inngarða.

 

Í tillögunni er lagt til að færa núverandi strandlínu fram til að vinna land og gera manngerða strönd meðyfirbragð náttúrufjöru með gróðri sem hugsanlega getur laðað að sér fuglalíf. Aðeins er göngu- og hjólastígurmeðfram ströndinni og gata liggur bak við fremstu húsin.

Gert er ráð fyrir að borgarlínan muni fara um fyrirhugaða Fossvogsbrú eftir að flugvöllurinn víkur en að fram að því fari strætó þar um og í gegnum hverfið.

Verslun og þjónusta eru miðsvæðis í hinni nýju byggð með tengingu í átt að núverandi byggð í Gamla (stóra)Skerjafirði en fjarlægðir á svæðinu eru ekki miklar.

Lóð grunn- og leikskóla tengist græna beltinu og þjónarsameinuðum hverfum með möguleikum til stækkunar þegar framhald verður á íbúðabyggð á flugvallarsvæðinu.

„Rammaskipulag Graeme Massie hefur verið leiðarljós skipulags í Vatnsmýrinni um nokkurt skeið. Það er að nokkru okkar fyrirmynd, en við viljum brjóta það upp og hverfa frá hornréttum samgönguæðum og strangri randbyggð. Við viljum mýkri form, fjölbreyttari byggð og mildara yfirbragð.“

Frekari upplýsingar má nálgast á vef Reykjavíkurborgar