Elliðahöfn við Ártúnshöfða

Vistvænt borgarhverfi með fólk í fyrirrúmi

Tillaga Landslags, Arkís og Verkís í samstarfi við Dr. Bjarna Reynarsson hlaut 1. verðlaun í samkeppni um rammaskipulag Elliðaárvogs og Ártúnshöfða. Tillagan byggir á náttúrufarslegum einkennum svæðisins, og leitast við að skapa sterkan staðaranda. Einnig er lögð áhersla á lýðheilsu, sjálfbærni og vistvæna hugsun.
Landslag á Ártúnshöfða skiptir hverfinu í tvö meginsvæði, byggðina uppi á höfðanum og byggðina niðri við voginn. Grænt belti teiknar upp gömlu strandlínuna og brún höfðans og myndar suð- og austlægan jaðar fyrir neðri byggðina þar sem einnig verður meginæð í kerfi sjáfbærra ofanvatnslausna, en jaðarinn mun einnig verða nýttur sem almenningsrými. Ártúnshöfðinn er dreginn sérstaklega fram sem kennileiti með því að færa sjóinn aftur inn að honum með „Elliðahöfn“ sem sker sig inn í landfyllingu og skapar skilyrði fyrir lifandi byggð í nýju bryggjuhverfi sem snýr vel við sól og í skjóli fyrir hafgolu. Áberandi kennileitisbyggingar og útsýnispallur fremst á höfðanum styrkja þessa mynd.

Borgarlínan, eða samgöngu og þróunarás í samræmi við aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, liggur um Stórhöfða og er meginæð á efra svæðinu, en Sævarhöfðinn hlykkjast um neðra svæðið. Framlengdur Breiðhöfði liggur sem sjónás í gegnum efri og neðri byggðina þvert á Stórhöfða og Sævarhöfða og sameinar svæðin tvö. Frá Breiðhöfða er útsýni yfir Grafarvog til Esjunnar. Þessar þrjár götur fá yfirbragð breiðstræta og er Stórhöfðinn þeirra breiðastur til að rúma almenningssamgöngulausn sem valin verður fyrir borgarlínuna.

Meginkjarnar byggðarinnar myndast við torg þar sem Breiðhöfðinn sker Stórhöfða (Krossmýrartorg) og Sævarhöfða (Bryggjutorg). Efri byggðin nýtur útsýnis, almenningsgarða og torga, en sú neðri nálægðar við sjó og aðliggjandi náttúruperlur í Elliðaárdal og Grafarvogi. Svæðin njóta nálægðar hvort við annað.

Geirsnefi verði umbreytt í skjólgott og fjölbreytilegt útivistarsvæði fyrir aðliggjandi byggð og sem framlenging á útivistar- og náttúrusvæðinu í Elliðárdal.

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: Tillagan skapar skýrar einingar í heildstæðu hverfi með margvíslegri útfærslu byggðarreita sem býður upp á fjölbreyttar húsagerðir. Að auki er gert ráð fyrir aðlaðandi og fjölbreyttum almenningsrýmum, sem og góðu samspili sjávar, lands og byggðar.