Landslag

Gufunes var eitt af elstu býlum í Reykjavík og í gegnum tíðina hefur svæðið gegnt

margvíslegum hlutverkum. Stórgrýtt strönd, stórbrotið og heillegt holtalandslag ásamt

jökulminjum einkenna svæðið.

 

Skipulagshugmyndin hverfist um þrjár grunnstoðir:

 

LÝÐHEILSA

Fjölbreyttan almennings- og lýðheilsugarð, Gufunesgarður, sem áður var sorphaugur.

 

NÁTTÚRA

Óheft aðgengi að strandlengjunni með útsýni yfir Sundin.

 

SKÖPUNARKRAFTUR

Flutning skapandi greina á svæði þar sem áður var óþrifalegur iðnaður.

 

AÐGENGI

Gömlu sorphaugarnir skipta hinum nýja borgarhluta í þrjú meginsvæði sem tengjast innbyrðis í gegnum Gufunesgarð með hjóla- og göngustígum.

 

Garðurinn afmarkast jafnframt af þremur götum sem mynda einskonar þríhyrning sem tengist núverandi byggð í Grafarvogi um Strandveg og vesturhluta borgarinnar með vegtengingu yfir í Kleppsvík.

 

BÁTAHÖFN

Þétt og fjölbreytt borgarbyggð er miðsvæðis með skjólgóðri smábátahöfn. Austan við höfnina eru lágreist íbúðarhús en sjóbúðir og hótel eru að norðanverðu. Á syðri hafnarbakkanum er bygging fyrir menningu, verslun og þjónustu.

 

Hverfið sunnan við höfnina er byggt á landfyllingu og hefur yfirbragð bryggjuhverfis.

Þar leika kanalar stórt hlutverk í götumyndinni en sjávarföllum er stjórnað með þar til gerðum lokum.

 

NORÐURSTRÖND

Fjölbreytt húsagerð er felld að landinu upp frá norðurströndinni. Tveggja hæða parhús neðst við sjóinn og þriggja til fimm hæða raðhús og fjölbýlishús þar fyrir ofan sem teygja sig upp að klettarimunum neðan við Strandveg.

 

Norðurbyggðin horfir yfir sundin með Gufunesgarð til suðurs og aðgengi að sjó til

norðurs.

 

HVERFISKJARNI

Þungamiðja Gufuness sem atvinnusvæðis verður áfram staðsett í nálægð við gömlu höfnina. Í göngufjarlægð frá kvikmyndaveri og skapandi klasa frumkvöðla og listamanna er að finna miðborgarumhverfi með þröngum götum og ýmsar tilvísanir í fyrri tíð. Stórar iðnaðarbyggingarnar eru hluti af atvinnusögu 20. aldar og húsatóftir gamla Gufunesbæjarins, varðar með gróðurhúsum, tengja menningarsöguna til landnáms. Yfirbragð og eðli byggðarinnar sækir fyrirmyndir í gömlu Reykjavík

þar sem ólíkar húsastærðir blandast í fjölbreyttu og þéttu byggðarmynstri. Meðal annars eru götureitir Goðahverfis endurskapaðir með litlum húsum innan stórrar randbyggingar.

 

VIÐEYJARÁS

Meginæð borgarhlutans er svokallaður Viðeyjarás sem liggur frá suðaustri til norðvesturs í beinni sjónlínu við gömlu iðnaðarhöfn Áburðarverksmiðjunnar en þar

er gert ráð fyrir göngubrú yfir í Viðey og biðstöð fyrir mögulegan bátastrætó. Norðan

við ásinn er kvikmyndaver RVK Studios og tengd starfsemi til húsa en sunnanmegin má finna hverfismiðju borgarhlutans þar sem blönduð byggð verður í fyrirrúmi.

 

GUFUNESGARÐUR

AFÞREYING / LÝÐHEILSA

Gufunesgarður er á óbyggilegum haugunum sem fylltir voru yfir Knútsvík, Gufunesgranda og Lónið. Garðurinn teiknar leynt og ljóst upp minningu um þetta horfna landslag með því að skiptast í fjölbreytilegan afþreyingar- og skemmtigarð á norður og austurhlutanum (Lónið) og rólegri náttúru- og skógargarð með

samkomusvæði á suður og vesturhlutanum (Knútsvík). Þar á milli er Gufunesgrandi sem fjölbreyttur bretta- og þrautagarður.

 

Svæðið er að mestu ónotað í dag ef frá er talin starfsemi Skemmtigarðsins sem leitast verður við að efla innan Gufunesgarðs. Garðurinn er um 37 hektarar að stærð og þjónar margvíslegum þörfum hverfisins og borgarbúa.

 

Umhverfis garðinn liggur hjóla- og göngustígur þar sem öryggi allra vegfarenda verður tryggt óháð ferðmáta og hraða. Fjölmargar aðkomuleiðir eru að garðinum og í gegnum hann liggja stígar sem afmarka mismunandi afþreyingarsvæði.

 

Til viðbótar við hefðbundna íþróttavelli er að finna hjólabrettagarð sem tekur mið af upprunalegu malarrifi nesins og útisvið í garðinum sem nýtir landmótun svæðisins til að hámarka upplifun áhorfenda og tónleikagesta.

 

Fjölbreyttur gróður og skógrækt setur mark sitt á garðinn og þannig þjónar hann jafnt náttúrunnendum og íþróttafólki allan ársins hring. Öll lýsing og sjónlínur miða að því að tryggja öryggi vegfarenda og val á yfiborðsefnum tryggir aðgengi fyrir alla.

 

 

Verkefni

Samkeppnir