Laugavegur samkeppni

Meginmarkmið höfunda er að hefja Laugaveg til vegs og virðingar
sem helsta stræti miðborgar Reykjavíkur. Sígilt, stílhreint og hlýlegt
yfirbragð undirstrikar forgang gangandi, skapar aðlaðandi umhverfi
og vænlegan starfsgrundvöll fyrir verslanir og veitingastaði.

Meginhugmynd tillögunnar byggir á skírskotun í sögu Reykjavíkur
ásamt vandlegri greiningu á staðháttum, svo sem hæðarlegu,
skuggavarps og tengingu við aðliggjandi almenningsrými.
Á mótum Laugavegar og Vatnsstígs er hábunga í landhalla
götunnar og þar með vatnaskil.

Uppspretta á vatnaskilum verður útfærð sem umhverfislistaverk
og veitir volgu vatni í vatnsrennu til beggja átta, annars vegar til
miðborgarinnar og hins vegar í átt að Hlemmi.
Notkun vatnsins í göturýminu er myndræn skírskotun í gömlu
leiðina að þvottalaugunum í Laugardal en einnig er skírskotað
í jarðvarmann, helstu auðlind og orkugjafa borgarinnar.
Vatnuppsprettan á sér einnig sögu úr umhverfinu. Lindin sem
Vatnsstígur og Lindargata eru nefndar eftir er gerð sýnileg á ný, en
fyllt var upp í hana i kjölfar sjúkdómafaraldurs árið 1907.

Rennan gegnir jafnframt hlutverki ofanvatnsrásar og tekur við
yfirborðsvatni göturýmisins ásamt því að taka þátt í að aðgreina
akandi og hjólandi frá gangandi umferð.
Á torgum og áherslustöðum getur rennan víkkað út í minni laugar
sem jafnvel má dýfa í berum tám á góðum sumardögum.

Lýsingu verður komið fyrir í rennunni sem gegnir hlutverki
leiðarljóss fyrir umferð ásamt því að skapa hughrif í húmi nætur.
Hún getur verið árstíðarbundinn eða kallað fram tímastillta
stemningu, t.d. verið rauðglóandi og minnt á glóðina undir
jarðskorpunni eða verið lita- og birtustillt í tengslum við hátíðir
og viðburði. Hægt er að sjá fyrir sér t.d. bleika lýsingu í tengslum
við átakið „bleika slaufan” á vegum krabbameinsfélags og
regnbogalýsingu í tengslum við gleðigönguna.