Stígur í baklandi borgar

05/02/2024

Landslag

 

  • Græna leiðin • Frá Kaldárseli í Kollafjörð • Verkefnið nú sett í greiningu • Náttúruperlur í nágrenni þéttbýlis

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þétting byggðar þýðir meðal annars að bæta þarf aðgengi almennings að útvistarsvæðum og náttúru. Sjónarmið um lýðheilsu, loftslag og vistvænar samgöngur vega einnig þungt. Ég greini því mikinn vilja til þess að farið verði fljótlega í framkvæmdir við mjög áhugavert verkefni,“ segir Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt hjá teiknistofunni Landslagi.  Nýlega samþykkti nefnd um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins að taka til frumgreiningar hugmyndir um lagningu á Græna stígnum svonefnda; braut fyrir vistvænar samgöngur hjólandi og gangandi sem liggja myndi í baklandi höfuðborgarsvæðisins. Fulltrúar skógræktarfélaga og sveitarstjórnarmanna héldu sameiginlegan opinn fund á dögunum um þetta mál, sem hefur góðan  hljómgrunn.

Mikilvægasta verkefnið

Græni stígurinn er skilgreindur í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins frá Esjuhlíðum í norðri og Undirhlíða við Kaldársel í suðri. Þar á milli lægi leiðin um Vífilsstaðaland, Heiðmörk, Hólmsheiði og upplönd Mosfellsbæjar að Mógilsá í Kollafirði, þar sem er fjölfarin gönguleið á Esjuna. Þarna á milli eru alls um 50 kílómetrar og á nokkrum köflum á þessari leið eru nú þegar komnir stígar. Sumir eru mjóir og malarbornir sem nú þarf að bæta og tengja saman við nýja svo úr verði heildstæð braut. Hugmyndin er að stígurinn verði þrír metrar á breidd og malbikaður alla leiðina til þess að greiða sem best aðgengi milli svæða í Græna treflinum.

„Um dagana hef ég talað fyrir mörgum skemmtilegum hugmyndum um umhverfisbætur og framkvæmdir sem stuðla eiga að betra aðgengi fólks að náttúrunni og bættri lýðheilsu. Ég tel þó að Græni stígurinn sé mikilvægastur allra slíkra verkefna,“ segir Þráinn Hauksson sem kynnti málið fyrir Morgunblaðinu nú í vikunni.

Grónir lundir og góðar samgöngur

Fyrir réttum 30 árum kynntu skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hugmyndir um Græna trefillinn; það er að skógarnir í upplandi höfuðborgarsvæðisins mynduðu eina stóra heild. Þetta allt hefur orðið að veruleika. Við Hafnarfjörð er skógræktarsvæði við Hvaleyrarvatn og bæjarskógur Garðbæinga er í Vífilsstaðahlíð í Heiðmörk. Guðmundarlundur, nærri Vatnsenda, tilheyrir Kópavogi og hinir víðfeðmu skógar í Heiðmörk ofan Elliðavatns, þar sem þungamiðja Græna stígsins yrði, eru að stærstum hluta innan borgarmarka Reykjavíkur. Það eru skógi vaxnar Hólms- og Reynisvatnsheiðar einnig. Í Mosfellsbæ eru einnig góð og falleg skógarlönd, svo sem í Hamrahlíð í vestanverðu Úlfarsfelli og vaxandi skógur í hlíðum fellanna ofan byggðar. Þaðan er svo stutt að Esjurótum, en bæði í Kollafjarðarbotni og við Mógilsá eru fallegir lundir sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur umsjón með. Og einmitt þetta eru staðirnir sem Græni stígurinn myndi þræða nema hvað góðar samgöngur myndu bæta mörgum nýjum perlum á festina.

Borgarlína og Græni stígurinn úr sama jarðvegi

„Í verkefnum eins og þessum hefur oft mátt greina vissa tregðu gagnvart því að vinna yfir sveitarfélagamörk. Í þessu máli finnst mér hún hins vegar vera víkjandi, enda eru fulltrúar sveitarfélaganna farnir að venjast því að vinna að ýmsum sameiginlegum verkefnum. Í rauninni eru Græni stígurinn og borgarlínan mál sprottin úr mjög svipuðum jarðvegi og hugmyndafræði,“ segir Þráinn Hauksson. Með sínu fólki hjá Landslagi hefur Þráinn sinnt þessu verkefni lengi. Fyrst með því að setja fram hugmyndina um Græna trefilinn fyrir skógræktarfélögin. Hugmyndin um Græna stíginn var svo kynnt af Skógræktarfélagi Íslands árið 2006. Landslag tók virkan þátt í að kynna stíginn og í framhaldi af því árið 2009 var þeim tilmælum beint til sveitarfélaga að taka stíginn inn í aðal- og deiliskipulagsáætlanir. Þannig hefur málið þokast áfram smátt og smátt á löngum tíma. Stærsta skrefið var samþykkt Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins árið 2015, en þar er Græni trefillinn eitt af helstu umfjöllunarefnum. Vinna við frumgreiningu verkefnisins nú þykir í því vera mjög þýðingarmikið skref.

Kafli á leiðinni að Kaldárseli ofan Hvaleyrarvatns í Hafnarfirði – malbikaður og vel breiður – er nokkurs konar forskrift að því hvernig Græni stígurinn skuli vera á sem lengstum köflum. Á langri leið lægi stígurinn um fjölbreytta náttúru og veitir aðgengi að fjöllum, fellum, holtum og hraunbreiðum. Færi meðfram vötnum, lækjum, ám og í gegnum skóga á beinum köflum og beygjum, á jafnsléttu og í aflíðandi brekkum.  „Auðvitað getur hver og einn sem gengur eða hjólar þessa leið farið hana eftir eigin höfði. Þess vegna eru tengingar til dæmis úr íbúðahverfum á höfuðborgarsvæðinu við Græna stíginn mjög mikilvægar. Þannig getur fólk búið til sínar eigin hringleiðir um sín eftirlætissvæði,“ segir Þráinn.

2-3 tíma ferðalag

Stígurinn tengist eða fer um ýmsa áhugaverða staði. Þráinn nefnir til dæmis Búrfellshraun, misgengið í Hjalladal í Heiðmörk, nágrenni Elliðavatns, Rauðhóla, Reynisvatn, og Varmársvæðið í Mosfellsbæ. Á síðastnefnda staðnum var síðasta haust tekinn í gagnið stígur fyrir vistvænar samgöngur sem falla myndi vel inn í þá stóru framkvæmd sem hér er staðið að. Svipuð er raunin á fleiri stöðum. Í Reykjavík er til dæmis kominn góður stígur frá Rauðavatni í Grafarholtshverfi í gegnum golfvöllinn þar.

Rafmagnshjól njóta vaxandi vinsælda en á þeim má ná 20-30 km hraða. Að hjóla frá Kaldárseli í Kollafjarðarbotn væri því um tveggja til þriggja tíma ferðalag, með stuttum stoppum. Ætla má þó að flestir myndu gefa sér betri tíma til að staðnæmast hér og þar, enda er margt á leiðinni til að skoða og njóta.  Sjáist til lands  „Starfið fram undan við hönnun stígsins er áhugavert. Hönnunin er stórt verkefni og svo vinna við skipulagsmálin sem sveitarfélögin hafa með höndum. Sums staðar hefur verið gert ráð fyrir stígnum en annars staðar er vinnan skemmra á veg komin,“ segir Þráinn og að síðustu:  „Í því starfi þarf að hafa í huga jarðfræði, vatnsvernd, fornminjar, öryggismál og fleira og stór þáttur í þessu er eignarhald á landi.  Víða á fyrirhuguðu stígasvæði er land í einkaeign sem kallar á að ná þurfi samningum við landeigendur og gera aðrar ráðstafanir.  Þetta mun allt taka tíma. Þá þarf að tryggja fjármuni til verkefnisins en þar myndi greiða fyrir ef hægt er að taka stígagerðina jafnhliða öðrum verkefnum, til dæmis þegar Landsnet setur loftlínur í jörð eins og til stendur að gera við Hafnarfjörð og Garðabæ.  Þar mætti nota óhjákvæmilegt rask til að byggja upp stíginn eins og gerðist við lagningu fráveitulagna og sjóvarna víða á strandlengjunni. Vonandi fer svo að sjást til lands í þessu verkefni eftir áratug og vonandi fyrr.“

BREYTT VIÐHORF Í ÚTIVIST

Aðstöðu þarf

Útivist hvers konar nýtur stöðugt meiri vinsælda og þá liggur leið fólks gjarnan á mörkina sem eru bak- eða uppland höfuðborgarbyggða. „Viðhorfin hafa gjörbreyst frá því farið var að ræða Græna trefilinn fyrir 30 árum, hvað þá að undirbúa að leggja græna stíginn. Ég segi að tveir viðburðir hafi breytt þar mestu um, bankahrun 2008 og Covid,“ segir Þráinn.

„Í kjölfar hrunsins urðu til margir útivistarhópar sem fóru á fjöll og færar leiðir. Í kófinu voru líkamsræktarstöðvar lokaðar, svo fólk fór þess í stað í gönguferðir. Þá fóru margir að hjóla til að fá nauðsynlega hreyfingu. Þarna kynntist fólk sínu nærumhverfi. Þetta gekk ekki til baka og æ fleiri stunda útiveru sem skapa þar aðstöðu.“

Til baka

Latest

Útsýni eða skjól

Vel gert við Goðafoss – Falli að umhverfinu

Fólk vill skjól og sólríka staði

Reynir Vilhjálmsson – Sjónþing 2004