Hönnun og skipulag ferðmannastaða á Íslandi

17/01/2024

Landslag

Hönnun og skipulag ferðmannastaða á Íslandi

Texti: Svava Þorleifsdóttir, Hermann Georg Gunnlaugsson og Arnar Fells.

 

Það hefur vart farið framhjá neinum á undanförnum árum að hefur ferðamannastraumur til Íslands vaxið með ógnarhraða og skila ferðamenn nú meiri tekjum til þjóðarbúsins en sjávarútvegurinn. Eitt alvarlegasta vandamálið sem við blasir er gríðarlegur ágangur við helstu náttúruperlur landsins. Í mörgum tilfellum hefur of seint verið brugðist við og ber víða á óafturkræfum skemmdum vegna átroðnings og lélegs aðbúnaðar fyrir ferðamenn. Hér þarf að lyfta grettistaki ef ekki á að fara illa fyrir þessari ört vaxandi atvinnugrein.

Bráðnauðsynlegt er taka á vaxtaverkjunum og tryggja að ferðaþjónustan haldi velli sem öflugasta atvinnugrein Íslands. Hvað hefur áunnist í uppbyggingu ferðamannastaða og hvaða verkefni liggja fyrir?

 

Ofvöxtur og uppbygging

Mikil og þörf uppbygging á sér nú stað í innviðum ferðaþjónustunnar á Íslandi. Síðustu ár hefur ferðamönnum hér fjölgað um 15-25% á milli ára og nú er svo komið að ferðamenn eru á ársgrundvelli þrefalt fleiri en íbúar landsins. Íslendingar hafa ekki undan við að reisa hótel, veitingahús, verslanir og aðra nauðsynlega uppbyggingu við vinsælustu áfangastaðina og engu líkara en að nýtt góðæri sé hafið.

Ástæður fyrir auknum áhuga ferðamanna á Íslandi eru margar en þar má helst nefna ósnortna náttúru, eldgosið í Eyjafjallajökli, markaðsherferðina “Inspired by Iceland”, áhuga á íslenskri tónlist og ekki má gleyma sjálfu efnahagshruninu og falli krónunnar árið 2008. Þessi ófyrirséði straumur ferðamanna hefur haft mjög jákvæð áhrif á efnahag þjóðarinnar en sökum vaxtarhraðans hefur ekki tekist að bregðast við með viðundandi hætti. Í fréttamiðlum ber nú æ meira á neikvæðum fréttaflutningi tengdum ferðamönnum en flestir vita að rót vandans liggur ekki hjá gestunum. Vandamálið snýr að okkur sjálfum, sér í lagi aðkomu stjórnvalda, fjárskorti hjá sveitarfélögum, landeigendum og hægagangi stjórnsýslunnar við afgreiðslu á skipulagsáætlunum.

Nýjustu spár gera ráð fyrir að 1,5 milljón ferðamanna heimsæki landið á næsta ári og er því afar mikilvægt að brugðist verði við með aðgerðum og auknum fjárveitingum. Frekari fjármunum þarf að verja í hönnun og skipulag sem lýtur að verndun, viðhaldi og uppbygginu svæðanna í sátt við umhverfið og samfélagið um ókomin ár. Gott skipulag og framúrskarandi hönnun er nauðsynleg til þess að tryggja góðan aðbúnað fyrir ferðamenn. Hámarka þarf upplifun þeirra og um leið snúa neikvæðri þjóðfélagsumræðu.

 

Framkvæmdasjóður ferðamanna

Árið 2011 var framkvæmdasjóður ferðamannastaða stofnaður með lögum á Alþingi. Markmið og hlutverk hans er að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða ásamt því að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins. Með fjármagni úr sjóðnum er einnig unnið að því að fjölga viðkomustöðum til að draga úr ágangi á þeim ferðamannastöðum sem eru nú þegar undir miklu álagi. Fjármagni hefur meðal annars verið veitt í skipulagsvinnu og hönnun fyrir fjölsótta staði eins og Gullfoss, Geysir, Landmannalaugar, Látrabjarg, Viðey, Stöng í Þjórsárdal og fjölda annarra. Frá stofnun framkvæmdasjóðsins hafa samtals 1700 milljónir runnið þangað og ljóst að aldrei hefur svo miklum fjármunum verið ráðstafað í málaflokkinn. Að sögn Ferðamálastofu hefur framkvæmdasjóðurinn styrkt 450 verkefni síðan 2012 en af þeim er 150 lokið. Þróunin er jákvæð en ljóst að mikil vinna er framundan.

 

“Hluti verkefna hefur gengið samkvæmt áætlun en önnur hafa þurft lengri tíma. Skipulagsmál hafa einnig reynst flókin og oft þarf að leggja sérstakt mat á svæðin vegna fornleyfa eða sérstakrar náttúru. Það hefur einnig reynst mörgum sveitafélögum og einkaaðilum erfitt að bæta uppbyggingu ferðamannastaða við dagleg og árleg verkefni” – (Björn Jóhannsson, Ferðamálastofu)

 

Fagleg áætlanagerð og góð hönnun í uppbyggingu ferðamannastaða getur haft mjög jákvæð hliðaráhrif og eflt ferðaþjónustu í tekjulitlum sveitarfélögum. Fyrstu skrefin hafa hinsvegar reynst mörgum sveitafélögum erfið því þau verða að leggja til 50% fjármögnunar á móti hlut framkvæmdasjóðs. Auk þess hefur vantað upp á fagþekkingu og reynslu á landsbyggðinni til að stýra verkefnum og framkvæma þau. Þessum áherslum þarf að breyta, þannig að sveitafélögin geti sett aukið fjármagn inn í mikilvæg verkefni.

Lykillinn að velgengni okkar til framtíðar er að efla sérþekkingu til að stýra verkefnum á staðnum, auka menntun og þjálfun sérhæfðra verktaka til framkvæmda og þeirra sem hafa umsjón með svæðunum að loknum framkvæmdum. Það er okkar mat að framkvæmdasjóður ferðamannastaða sé mikilvægur liður í því að okkur takist vel til og að því fjármagni sem kemur í gegnum sjóðinn sé varið á faglegann og skynsaman hátt.

 

Gjaldtökur við náttúruauðlindir

Núverandi ríkisstjórn beitti sér fyrir því að tekin yrði upp samræmd gjaldtaka með upptöku náttúrupassa fyrir alla ferðamenn sem kæmu til Íslands. Gjaldtakan átti meðal annars að fjármagna uppbyggingu ferðamannastaða en ekki náðist sátt um málið og því ljóst að skoða verður aðrar leiðir til að afla tekna. Hér gæti reynsla annarra þjóða nýst Íslendingum en víða gilda skýrar reglur um stjórnun og rekstur ferðaþjónustu innan þjóðgarða og friðlýstra svæða.

Landeigendur við Jökulsárlón ákváðu að fara sömu leið og innleidd var á Nýja Sjálandi og í Ástralínu. Þar eru gjöld sett á aðila, eins og ferðaþjónustufyrirtæki, sem hafa fjárhagslegan ávinninning af því að vera innan þjóðgarða og verndarsvæða. Á Jökulsárlóni er mikið um kvikmyndatökur, bæði fyrir sjónvarpsþætti og auglýsingar. Nú þurfa þeir aðilar að greiða fyrir tökuréttinn á meðan ferðamenn á eigin vegum fara endurgjaldslaust um svæðið. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og skilar landeigendum nauðsynlegum tekjum sem verja má til frekari uppbyggingar á svæðinu.

 

Vatnajökulsþjóðgarður ákveðin fyrirmynd

“Öll svæði á Íslandi eru viðkvæm. Vandinn felst í því að hinn velkomni gestur er ógnvaldur þess sem dró hann á staðinn. Fyrsta boðorð er því að tryggja að væntingar hans um upplifun verði að veruleika. Næsta boðorð er að fyrirbyggja að heimsókn hans valdi engum náttúruskemmdum og þannig tryggja væntingar annarra um sömu náttúruupplifun. Hvort tveggja krefst hugsunar, umræðu, hönnunar og meiri umræðu áður en framvæmt er.” – (Vatnajökulsþjóðgarður)

 

Síðan Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008 hefur margt gerst í skipulagi, hönnun og framkvæmdum innan þjóðgarðsins og hefur hann verið til fyrirmyndar við mannvirkjagerð á viðkvæmum svæðum.

 

“Þar hafa viðfangsefnin verið skoðuð á þeim forsendum, að brýnt sé að fagleg og gagnrýnin hugsun sé undanfari framkvæmda. Skipulag og fagurfræði þurfi að fara saman. Þannig skilar framkvæmdin þeirri gagnsemi sem að er stefnt.” -(Vatnajökulþjóðgarður)

 

Vatnajökulsþjóðgarður leggur mikla áherslu á að uppfylla væntingar gesta og að heimsóknir í garðinn valdi ekki skemmdum á náttúrunni. Aðlögun mannvirkja að umhverfi ræðst fyrst og fremst af gæðum hönnunar og skynsamlegum lausnum. Útsýnispallar við Ófærufoss í Eldgjá og Svartafoss í Skaftafelli eru gott dæmi um ólíkar lausnir, þar sem markvisst er unnið í sátt við umhverfið.

 

–      Ófærufoss í Eldgjá

Megin hugmyndin við hönnun útsýnispalls var að fella hann inn í landslagið og tryggja ögrandi útsýni til að njóta fossins. Pallurinn er staðsettur í skjóli hæðarbrúnar og því sést hann ekki frá aðkomusvæðinu að neðan. Markmiðið með hönnun, staðarvali og staðsetningu pallsins er að hann virki sem einskonar náttúruvernd fyrir viðkvæman gróður svæðisins og veiti ferðamönnum eftirsóknarverða upplifun.

Hönnuðir: Arkís ehf, Landform ehf og Efla hf. Verkfræðistofa

 

  • Dettifoss

Vegna stórbættrar aðkomu að Dettifossi að vestan og fjölgunar gesta, hefur verið unnið að bættu aðgengi og öryggi ferðamanna við fossinn. Við hönnun á stígum og útsýnispöllum er lögð áhersla á að lágmarka efnisnotkun og að nota endingargóð og viðhaldslítil efni.

Hönnuðir: Landmótun sf og Efla hf. Verkfræðistofa

 

  • Svartifoss í Skaftafelli

Svartifoss í Skaftafelli er vinsæll áfangastaður ferðamanna og stendur til að byggja útsýnispall við fossinn. Lagt var upp með að pallurinn falli vel að umhverfinu og mun hann rúma töluverðan fjölda fólks. Byggingarefnið er stál og lerki úr íslenskum skógum. Lögð er rík áhersla á endingu efnis, lítið viðhald og að hægt sé að fjarlægja mannvirkið án þess að skilja eftir mikil ummerki.

Hönnuðir: Landmótun sf , burðarþolshönnun EFLA hf. Verkfræðistofa

 

Þingvellir – þjóðgarður á heimsminjaskrá

 

Saga íslensku þjóðarinnar endurspeglast hvergi betur en í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 og landsmenn þinguðu þar árlega til ársins 1798. Allir helstu og markverðustu viðburðir í sögu þjóðarinar hafa farið fram á Þingvöllum og því skipar svæðið sérstakan stað í hjörtum Íslendinga. Þingvellir voru árið 2004 samþykktir inn á heimsminjaskrá UNESCO og eru því á lista með áfangastöðum sem eru taldir eru hafa sérstakt menningar- og náttúrulegt gildi fyrir alla heimsbyggðina.

 

Á undanförnum árum hefur ferðamannastraumur til Þingvalla aukist mjög mikið og sýna tölurnar um 80% aukningu á aðeins 10 árum.

 

“Víða sér verulega á gróðri og eiga starfsmenn þjóðgarðsins í fullu fangi með að koma í veg fyrir frekari skemmdir sökum stóraukins ágangs á svæðinu. Til að mæta þessum aukna fjölda hefur verið farið í mörg verkefni til að greiða götu ferðamanna um svæðið, en um leið vernda viðkvæma náttúru Þingvalla.” (Einar Á. E. Sæmundsen, fræðslufulltrúi Þjóðgarðsins á Þingvöllum)

 

Verkefnin eru af ýmsum toga, allt frá einföldum girðingum sem settar eru upp meðfram gönguleiðum yfir í heildarskipulag aðkomu að Hakinu fyrir gangandi og akandi gesti í þjóðgarðinn. Að auki hefur verið unnið að úrbótum og aðkoma bætt á einum mikilvægasta útsýnisstað Þingvalla fyrir ofan Almannagjá. Lagðar hafa verið hellur úr skornu hraungrýti og við Öxarárfoss hafa nýjir útsýnispallar stórbætt almennt öryggi og upplifun ferðafólks. Pallurinn hefur jafnframt nýst vel til að stýra flæði gesta um nærliggjandi svæði.

 

Þingvallanefnd og starfsfólk þjóðgarðsins á Þingvöllum hefur unnið að endurskoðun stefnumótunar þjóðgarðsins síðan í vetur og leitað hefur verið til ýmissa hagsmunaaðila. Vinnunni er ekki lokið en mörg sjónarmið og hugmyndir sem hafa komið fram munu nýtast nefndinni og ráðgjöfum hennar til að ljúka nýrri stefnumótun.

  • Hakið

Hakið er aðal aðkoma þjóðgarðsins á Þingvöllum. Hönnun útsýnispalla og aðkomutorga miðast við að mikill fjöldi gesta rúmist við upphaf og enda ferðar niður að Almannagjá. Hraun er efni staðarins og er það notað í hlaðna veggi til afmörkunar svæða og til að gefa gestum möguleika á að tylla sér. Sagað hraun er notað sem yfirborðsefni á torg sem tengir saman gestastofu, Almannagjá og útsýnispall á Hakinu. Með vönduðum frágangi í forgarði þjóðgarðsins er gestum gefið til kynna að um helgan stað er að ræða sem ganga skuli um af virðingu og nærgætni.

Hönnuðir: Landslag ehf

 

  • Öxarárfoss

Ágangur ferðamanna við Öxarárfoss myndaði áður stórt flag í gróðursvörðinn þar sem timburstígur endaði við fossinn. Nýr útsýnispallur við Öxarárfoss hylur nú flagið en þar geta gestir nú tyllt sér niður og notið þess að fylgjast með fossinum. Pallurinn er lagaður að landslagi í tveimur flötum og hæðarmunurinn myndar óformlegan setkant. Hópar ferðamanna rúmast nú á pöllunum og mun minna er um að fólk fari út fyrir pallinn og traðki á viðkvæmum gróðri. Reynslan sýnir að ferðamenn halda sig innan afmarkaðra svæða.

Hönnuðir: Landslag ehf og Gláma Kím arkitektar

 

Nýjir ferðamannastaðir

 

Könnun á vegum Ferðamálastofu hefur sýnt að um 97% ferðamanna komi til Reykjavíkur og 60% þeirra fari um Suðurland og að mest sé álagið við Þingvelli, Gullfoss og Geysi, Skóga, Jókulsárlón og Skaftafell. Ferðamálastofa og Samtök ferðaþjónustunnar hafa bent á nauðsyn þess að dreifa ferðamönnum betur um landið þar sem fjölsóttustu ferðamannastaðir í nágrenni við Reykjavík og á Suðurlandi séu komnir að þolmörkum sem snýr að upplifun annarra ferðamanna. Nauðsynlegt sé að fjárfesta í uppbyggingu á öðrum stöðum og tengja þá við sögu lands og þjóðar. Fjölgun flugvalla í millilandaflugi gæti einnig haft mikið að segja fyrir minni þéttbýlisstaði en á landsbyggðinni eru fjölmargir staðir sem hægt er að byggja upp með bættum innviðum og fjárfestingu sem byggir á góðri hönnun og fagþekkingu.

Á síðustu misserum hafa verið kynntar ýmsar nýjar útfærslur og hugmyndir að uppbyggingu á ferðamannastöðum. Í sumum tilfellum svæði sem ekki eru hluti af þjóðgörðum eða njóta sérstakrar verndar. Oft eru þetta svæði þar sem hafa verið deilur um uppbyggingu eins og á Geysissvæðinu og Jökulsárlón og sumstaðar eins og á Látrabjargi og við Dettifoss er orðið aðkallandi að grípa inn í áður en það er orðið of seint.

Í nokkrum tilfellum hefur verið efnt til samkeppna og ákveðnar línur lagðar til framtíðar. Dæmi um þetta er nýleg samkeppni um uppbyggingu í Landmannalaugum. Það er mikilvægt að um slíkar hugmyndir verði sátt og að hægt sé að koma þeim í framkvæmd áður en langt um líður en aðkoma sérfræðinga og ráðgjafa getur þar skipt sköpum.

 

  • Geysissvæðið í Haukadal

Í mars 2014 lá fyrir niðurstaða úr hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Geysissvæðisins í Haukadal. Vinningstillagan byggir á heildstæðri sýn á skipulag og hönnun svæðisins en mikil áhersla var lögð á vandað efnisval sem þolir veðrun við erfið skilyrði á hverasvæðinu. Timburstígar munu dreifa umferð um svæðið og umhverfi Strokks verður gert þannig að áhorf og dvöl verði góð upplifun fyrir gesti. Reynt verður að friða hveraskál Geysis og takmarka umferð umhverfis hann.

Undirbúningur fyrsta áfanga er nú í gangi og er Umhverfisstofnun framkvæmdaraðli.

Höfundar vinningstillögu: Landmótun í samstarfi við Argos arkitekta, Einar Ásgeir E. Sæmundsen landslagsarkitekt FÍLA, ráðgjöf veitti Gagarín ehf.

Hönnunarteymi 1.áfanga: Landmótun í samstarfi við Argos arkitekta, og Ferill verkfræðistofa.

 

  • Landmannalaugar

Landmannalaugar eru mótaðar af eldvirkni og jarðhita, landið er fjöllótt og einkennist af litadýrð allt frá ljósbleiku líparíti yfir í biksvarta hrafntinnu.  Megin markmið tillögunnar er að styrkja ímynd Landmannalauga sem og raska sem minnst náttúru og lífríki svæðisins. Lögð er áhersla á látleysi, sveigjanleika og umhverfisvernd en tillagan tekur mið af sjálfbærni og verður núverandi þjónustukjarni færður af viðkvæmu svæði við Laugahraun.

Uppbyggingin á Sólvangi sem er í um 15 mínútna göngufjarlægð frá Laugum verður á aurum Jökulgilskvíslar og þannig er komið í veg fyrir rask á viðkvæmum gróðurlendum. Byggingar eru lágstemmdar, byggðar úr ljósu timbri sem fellur vel af líparítinu sem einkennir landslagið. Höfundar vinningstillögu: Landmótun sf og VA arkitektar ásamt Erni Þór Halldórssyni.

 

–          Seljalandsfoss

Áður en farið var í framkvæmdir við Seljalandsfoss var yfirferðin um svæðið bæði erfið og hættuleg enda gríðarlegur vatnsúði og mikið af lausu og hálu grjóti á gönguleiðinni. Með tilkomu nýrrar tröppu hefur öryggi gesta verið tryggt og um leið komið í veg fyrir frekari skemmdir á landinu austan við fossinn. Þegar komið er að fossinum er göngutrappan að mestu í hvarfi og fellur vel að dökku náttúrugrjótinu.

Hönnuðir: Landform ehf.

 

Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á nauðsynlega uppbyggingu við mikilvægar náttúruperlur eins og Gullfoss, Geysi, Skaftafell og Dettifoss, en einnig hafa nýjir ferðamannastaðir litið dagsins ljós. Með þessum nýju áfangastöðum er verið að dreifa álaginu og bjóða upp á ákveðinn fjölbreytileika í ferðaþjónustu. Má þar nefna mörg skemmtileg verkefni eins og Ísgöngin í Langjökli, Fontana á Laugarvatni og hellinn við Þríhnúkagíg. Göngin í Langjökli eru að mörgu leiti sjálfbær og afturkræf framkvæmd sem gæti veitt svæðinu mikilvæg tækifæri í uppbyggingu fyrir ferðaþjónustu. Síðan göngin voru opnuð hefur aðsóknin verið mun meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Á þessu svæði er einnig verið að koma á fót jarðvangi sem gæti styrkt verkefnið enn frekar.

 

–          Fontana á Laugarvatni

Laugarvatn Fontana er náttúrulegt gufubað á Laugarvatni sem var vígt árið 2011. Heimildir um gufubað og böð í Laugarvatni má finna frá árinu 1929 en áður en framkvæmdir við nýju mannvirkin hófust hafði gamli gufuskúrinn staðið á svæðinu frá árinu 1940. Með þessum mannvirkjum hefur verið endurvakinn vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem byggir á gamalli hefð. Verkefnið er gott dæmi um vel lukkað samstarf landeigenda, fjárfesta og hönnuða.

Hönnuðir: Á Stofunni arkitektar, Stúdió Strik og Landform ehf.

 

Framtíðarsýn

 

Yfir 80% heimsókna erlendra ferðamanna á Íslandi segjast ferðast hingað vegna náttúrunnar. Því er ljóst að lítt snortin og sérstæð náttúra okkar er sú auðlind sem ferðaþjónustan þarf að byggja á til framtíðar. Uppbygging í ferðaþjónustu verður að miða að því að standa undir væntingum þeirra ferðamanna sem heimsækja landið því annars er hætta á að ferðamennirnir leiti á önnur mið. Samvinna ólíkra hópa, sérfræðinga og hönnuða skiptir þar miklu máli. Með hönnun og nýsköpun er hægt að búa til nýjar upplifanir og bjóða þannig upp á margbreytileika fyrir fjölbreyttan hóp ferðamanna.

Ljóst er að efling framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og faglegar útdeilingar úr sjóðnum eru lykillinn að því að okkur takist vel til en mögulega þarf að endurskoða skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga. Víða hefur jákvæð þróun átt sér stað en það má gera betur og búa til mikilvæga fagþekkingu. Gera þarf heildaráætlun um uppbyggingu ferðamannastaða á landsvísu og vekja meiri athygli á því sem vel er gert og veita viðurkenningar fyrir vandaða uppbyggingu á viðkomustöðum ferðamanna.

Það er oft sagt að síbreytileiki og kraftur íslenskrar náttúru endurspeglist í þjóðarsálinni og Íslendingar státa sig oft af því að vera fljótir að innleiða nýjungar og aðlagast breyttum aðstæðum. Þetta eru góðir kostir en það sem vegur á móti er skammsýnin og seilingar eftir skjótfengnum gróða sem áður hefur sett þjóðina á hliðina. Nú er kjörið tækifæri fyrir Íslendinga að hugsa og hanna til framtíðar í skilyrðislausri sátt við samfélag og náttúru.

 

Viðmælendur:

Björn Jóhannsson, landslagsarkitekt og umhverfisstjóri hjá Ferðamálastofu.

Einar Á. E. Sæmundsen, landslagsarkitekt og fræðslufulltrúi þjóðgarðisins á Þingvöllum

Þórður H. Ólafsson, Framkvæmdarstjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf

Einar E. Sæmundssen, Aðalheiður E. Kristjánsdóttir og Þórhildur Þórhallsdóttir, landslagsarkitektar hjá Landmótun sf.

Birgir Teitsson arkitekt hjá Arkís ehf

Oddur Hermannsson landslagsarkitekt hjá Landform ehf

Sigríður Ólafsdóttir arkitekt hjá Studio strik ehf

 

Til baka

Latest

Útsýni eða skjól

Vel gert við Goðafoss – Falli að umhverfinu

Stígur í baklandi borgar

Fólk vill skjól og sólríka staði