Vífilsstaðaland – Samkeppni um rammaskipulag

Förum glöð inn í jólahátíðina með 1. verðlaun í samkeppni um rammaskipulag Vífilsstaðalands í Garðabæ. Tillagan var unnin í samstarfi við Batteríið arkitektar og EFLA.

Hlökkum til að útfæra nánar í ramma- og deiliskipulagi í samráði við alla hagsmunaaðila á svæðinu

Tillagan tekur í öllum meginatriðum útgangspunkt í nýju aðalskipulagi Garðabæjar. Byggð og íþróttasvæði milli Reykjanesbrautar leggst að grænum ás með stíg í trjágöngum sem framlengist til norðurs út úr miðju Vífilsstaðaspítalans og endar í tröppusvæði upp hlíðar Hnoðraholts og í útsýnisstað á neðri kolli holtsins. Ásinn heldur óbeint áfram til suðurs niður á milli trjábeltanna í garðinum sunnan Vífilsstaða og brúar bilið yfir Vatnsmýrina með göngu- og fuglaskoðunarbrú yfir á hraunjaðarinn. Þar endar ásinn í listaverki til minningar um frumkvöðlastarfið á Vífilsstaðahælinu.

Ásinn þverar íþróttasvæði Stjörnunnar og tengir ólíka starfsemi íþróttasvæðisins og skólans saman. Höfundar leggja áherslu á að ólík byggingarmannvirki vestan við ásinn fái heildstæð en einstök útlitsleg einkenni sem yrðu kennileiti fyrir svæðið í heild og íþróttafélagið Stjörnuna.

Þau íþróttamannvirki sem fyrirskrifuð eru í keppnilýsingu eru staðsett næst skólanum nyrst við ásinn en sunnar verður svigrúm til framtíðarstækkunar hvort sem það verður sundlaug, tennis, skautahöll eða hjóla/brettagarður – svo eitthvað sé nefnt. Austan við ásinn einkennist íþróttasvæðið af knattspyrnuvöllum sem mynda láréttar flatir á mismunandi hæðum til að svara hæðarlegu landslagsins. Einum vallanna er komið fyrir ofan á þaki knatthúss og gefur það þakinu grænt yfirbragð séð ofan úr holtinu.

Þar sem völlunum sleppir taka við golfbrautir upp Vetrarmýrina og út að Vífilstaðavatni. Höfundar velja að skilja meira svigrúm umhverfis golfskála en aðalskipulag gerir ráð fyrir, sem auðveldar frágang teiga og flata sem þurfa að vera í nálægð við skálann. Þess í stað geta fótboltavellir tekið meira svæði nyrst á íþróttasvæðinu sem einnig er hagkvæmt þar sem landhalli er minni þar en næst Vífilstaðavegi.