Landslag ehf er tilnefnt til Rosa Barba Landscape Prize fyrir hönnun tröppustígsins upp á Saxhól í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Verðlaunin verða veitt þann 28. september í tengslum við Landslagarkitektúrtvíæringinn í Barcelóna sem nú er haldinn í tíunda sinn.
Alls eru 9 verkefni hvaðanæva úr heiminum tilnefnd, tvö frá Kína auk verkefna frá Frakklandi, Grikklandi, Íslandi, Ísrael, Ítalíu, Mexíkó og Sviss. Fulltrúar Landslags kynna verkefnið á stórri ráðstefnu fyrir dómnefnd virtra fagmanna sem koma víða að.
Landslag hefur áður verið tilnefnt til þessara verðlauna en fyrra skiptið var árið 2003 fyrir hönnun snjóflóðavarnargarða á Siglufirði. Verkefnið hlaut þá sérstaka viðurkenningu. Saxhóll hefur þrisvar sinnum verið tilnefndur til innlendra og erlendra verðlauna á líðnu ári, Hönnunarverðlauna Íslands, Nordic Architecture Fair Award og Menningarverðlauna DV. Auk þess var verkið valið sem fulltrúi íslenskrar hönnunar á ráðstefnu í Stokkhólmi síðastliðið vor, Architecture and Design The Nordic Way. Tilnefningin í Barcelóna er ein mesta viðurkenning sem íslenskir landslagsarkitektar hafa hlotið.
Saxhóll er vinsæll viðkomu- og útsýnisstaður yst á Snæfellsnesi í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Hóllinn er 45 metra hár keilulaga gígur með lausu og lítt grónu gjalli í hlíðum. Gígurinn er nálægt þjóðveginum og þaðan er gott útsýni að jökli og yfir hraunbreiðurnar allt um kring. Með sívaxandi fjölda gesta hafði myndast ákveðið spor í spírallaga sneiðing upp hólinn og var tekið að skríða til, breikka og aflagast. Laust yfirborðið var jafnfram óþægilegt og hættulegt yfirferðar. Smíðaður var tröppustígur úr svörtu stáli sem ryðgaði flótlega og samlagaðist litbrigðum hólsins. Stígurinn er lagður eftir sárinu sem komið var í hólinn og er settur saman úr tveimur bogum sem mætast á hvíldarpalli á miðri leið. Stígurinn er 160 metra langur og 1,5 metra breiður sem nægir til fólk geti mæst. Hvor bogi er samsettur úr þriggja metra löngum einingum. Hliðar stigans eru úr stífum stálplötum sem skorðast niður í gjallið. Einingar voru festar saman í eina samfellu og engra annarra undirstaða var þörf. Reynslan af tröppustígnum er sú að gestir halda sig alfarið á sporinu og hættan á myndun nýrra leiða virðist úr sögunni.
Viðurkenningarnar eru hvati til hönnuða og framkvæmdaraðila til faglegra vinnubragða við hönnun og uppbyggingu á ferðamannastöðum á Íslandi.
Verkkaupi: Umhverfisstofnun
Tilkynning frá Barcelona International Biennial of Landscape Architecture.
Heimasíða Barcelona International Biennial of Landscape Architecture
You must be logged in to post a comment.