Hörputorg verðlaunað

Torgið við Hörpu hlaut verðlaun sem besta norræna almenningsrýmið á Arkitekturmässan í Gautaborg 24. október. Það er mikill heiður þegar horft er til annarra tilnefndra verka og höfunda þeirra. Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf veitti verðlaunum viðtöku fyrir hönd hönnunarteymisins. Norskar teiknistofur unnu tvenn verðlaun, Snöhetta arkitektar fyrir Reindeer Pavillion sem „besta norræna byggingin“ og Dahl og Uhre arkitektar fyrir „besta norræna bæjarskipulagið“ í Nuuk á Grænlandi.

Harpa in exhibition at Världskulturmuseet

Arkitekturmässan í Gautaborg var nú haldin í fyrsta skipti. Áform eru um að festa hana í sessi sem stærsta norræna viðburðinn meðal arkitekta og landslagsarkitekta og halda annað hvert ár. Messan er sýning og ráðstefna með innlendum og erlendum fyrirlesurum. Hápunktur messunnar var að veita í fyrsta skipti norræn verðlaun í arkitektúr í flokkunum þremur. Verkin skyldu hafa klárast á liðnu ári. Valnefndir í hverju hinna norrænu landa máttu tilnefna allt að 3 verk í hverjum flokki. Íslenska valnefndin var leidd af Guju Dögg Hauksdóttur arkitekt og í henni sátu auk hennar arkitektarnir Dagur Eggertsson, Olga Guðrún Sigfúsdóttir og Helgi Steinar Helgason. í flokknum „besta almenningsrýmið“ valdi nefndin torg við Hörpu (Landslag / Batteríið í samráði við HLA og Ólaf Elíasson. Verkfræðingar Mannvit og Verkís.

Rökstuðningur valnefndar var (lauslega þýtt úr ensku): Við hönnun torgsins er skírskotað til þróunar svæðisins í gegnum tíðina m.t.t. fyrra yfirbragðs, starfsemi og mannvirkja sem eru löngu horfin undir landfyllingar. Vatnsspegill aðgreinir landfyllingarhólma frá upprunalegri strandlínu. Aðgengi að torginu er um bryggjur sem kallast á við dvalarsvæði úr bryggjuviði þar sem byggingin liggur að höfninni.

Alþjóðleg dómnefnd skipuð arkitektum víða að úr heiminum valdi vinningsverk í hverjum flokki og voru verðlaun veitt á hátíðarkvöldi ráðstefnunnar sem haldið var í Världskulturmuseet þ. 24. október.

Myndir af torginu má nálgast hér