50 ára afmælisári

Landslag stendur á stórum tímamótum árið 2013. Í apríl verða 50 ár liðin frá því að Reynir Vilhjálmsson hóf störf sem landslagsarkitekt á Íslandi, en teiknistofan byggir á samfelldum rekstri Reynis og meðeiganda hans síðan þá. Markmið fyrirtækisins er að vera leiðandi fyrirtæki í skipulagi og landslagshönnun og hefur starfsfólk teiknistofunnar í gegnum tíðina gert margan garðinn frægan með frjórri hugsun og vönduðum vinnubrögðum.


Það er því mikið gleðiefni að tilkynna að um síðastliðin áramót var gengið frá samkomulagi um sameiningu teiknistofanna Landslags ehf í Reykjavík og X2 hönnun – skipulag ehf á Akureyri. Eigendur og starfsmenn X2, bræðurnir Ómar Ívarsson skipulagsfræðingur og Ingvar Ívarsson landslagsarkitekt ganga í eigendahóp Landslags og reka héðan í frá starfsstöð sína á Akureyri í nafni Landslags. Ómar og Ingvar eru öllum hnútum kunnugir hjá Landslagi því þeir störfuðu hér um árabil þar til þeir fluttu heim til Akureyrar og hófu eigin ráðgjafarstarfsemi árið 2008. Með sameiningunni verður skotið styrkum stoðum undir rekstrargrundvöll starfstöðvarinnar á Akureyri sem og verkefni fyrirtækjanna á Norðurlandi. Landslag í Reykjavík fær jafnframt góðan bakhjarl, m.a. með reynslu Ómars af skipulagsmálum. Starfsstöð Landslags á Akureyri er til húsa í Kaupangi við Mýrarveg.
Þráinn Hauksson er stjórnarformaður Landslags og framkvæmdastjóri er Finnur Kristinsson. Aðrir eigendur Landslags eru auk þeirra Ingvars og Ómars landslagsarkitektarnir Elízabet Guðný Tómasdóttir og Eiður Páll Birgisson. Myndin að ofan er tekin við teiknistofuna á Skólavörðustíg 11 og er af öllu starfsfólki Landslags eftir sameiningu í ársbyrjun 2013.