Lóð Hörpu

20.05.2011

Harpa

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa hefur verið tekið í notkun. Landslag annaðist lóðarhönnun í samstarfi við arkitektastofuna Batteríið og í samráði við Henning Larsen arkitekter og Ólaf Elíasson listamann. Verkfræðihönnun var á höndum Mannvits og Verkís. Lóðarframkvæmdum er ekki lokið en verður það við vígslu hússsins í ágúst. Verkkkaupar eru Austurhöfn, Portus og Reykjavíkurborg. Landslag kom að verkinu sumarið 2010 og voru þá uppi áform um að ganga frá stórum hluta lóðarinnar til bráðabirgða, en hún er nánast öll ofan á 2ja hæða bílastæðahúsi. Eftir því sem hugmyndir þróuðust varð til nálgun með skírskotun í sögulega þróun svæðisins og yfirbragð hafnarsvæða og tók mið af væntingum um nothæft miðborgarrými og ekki síst þröngum fjárhagsramma. Sýnt var fram á að með slíkri nálgun mætti ganga frá lóðinni á varanlegri hátt en áður var ætlað innan ásættanlegra kostnaðarmarka.

Við upphaf byggðar í Reykjavík lá strandlínan utan við Arnarhól nánast í núverandi legu Kalkofnsvegar. Fyrri hluta síðustu aldar voru bryggjur í sjó fram í víkinni alveg út undir Ingólfsgarð, en þar safnaðist fólk gjarnan saman til að fylgjast með skipakomum. Við hönnun lóðarinnar er gömul sjávarstaða látin endurlífgast í spegiltjörnum meðfram Kalkofnsvegi. Harpa stendur því úti á eins konar hólma sem tengist við land með göngubryggjum sem skírskota til eldri bryggja í víkinni. Setpallar götumegin við tjarnirnar gefa tilefni til að byggingarinnar og spegilmynd hennar verði notið í hæfilegri fjarlægð. Torgið á hólmanum skiptist í þrennt. Að austanverðu er aðkomutorg fyrir blandaða umferð bíla, hjólandi og gangandi. Í skjólgóðum krikanum sem framhlið byggingarinnar myndar er dvalartorg í tengslum við veitingastaði og almenningsrými innandyra. Suðvesturhluti torgsins er hugsaður sem fjölnotatorg fyrir ýmsa tímabundna viðburði eins og stærri útitónleika, markaði og skautasvell. Þessi hluti torgsins mun að einhverju leyti endurmótast í tengslum við framtíðaruppbyggingu á reitnum í átt að miðborginni. Vestan við bygginguna verður spegiltjörn með yfirfall í fossi í sjó fram. Tjörnin verður umlukin stórri bryggjuverönd með möguleika á útiveitingaaðstöðu og setstöllum sem trappast í átt að Faxagarði. Við hönnun lóðarinnar hefur verið leitast við að greiða leiðir gangandi og hjólandi um lóðina og tengja hana vel við umhverfi sitt í miðborginni og út með ströndinni. Landslag vinnur nú að hönnun Kalkofnsvegar sem hægakstursgötu á kaflanum milli Hörpu og Seðlabankans. Þar er m.a. gert ráð fyrir nýjum gönguþverunum yfir götuna til móts við allar bryggjur og yfirborðsfrágangi með vísun í upprunalega strandlínu.

Skoðið kynningu á PDF formi (3,1 MB).
Hlustið á viðtal við Þráin Hauksson um lóð Hörpu í Víðsjá 17. maí s.l.