Jólakveðja Landslags 2010

19.12.2010

Jólakveðja Landslags 2010

Árið 2010 hefur verið viðburðaríkt og gefandi hjá Landslagi þrátt fyrir strembið rekstrarumhverfi. Auk hefðbundinna hönnunar- og skipulagsverkefna höfum við sent verk á sýningar nær og fjær, sinnt samfélagsverkum og hugmyndaþróun, flutt erindi og komið að námskeiðahaldi um sjálfbærar ofanvatnslausnir. Í þessu er falinn heiður en hann var þó mestur þegar Reynir Vilhjálmsson stofnandi teiknistofunnar var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frumherjastörf við skipulag og mótun umhverfis.

Á árinu var haldið áfram með hönnun samnorrænnar sýningar landslagsarkitekta „New Nordic Landscapes“ í Shanghai, þar sem Hellisheiðarvirkjun var jafnframt framlag Íslands með Landslag í hönnunarteyminu. Sýningin stóð yfir allt sumarið og var gerð skil með fyrirlestri í Norræna húsinu í haust. Verk okkar voru valin á fleiri sýningar, eins og „ManMade Environment“ sem er norræn farandsýning sem opnaði í Osló og kemur til Íslands næsta sumar. Snjóflóðavarnir á Siglufirði fóru til New York á „Nordic Models + Common Ground“ í Scandinavian house og er á „Íslensk samtímahönnun“ sem ferðast hefur frá Íslandi um Danmörku, Shanghai, Beijing og fer loks til Stokkhólms í febrúar 2011.

Haldið var í víking í byrjun árs og má segja að vel hafi borið í veiði við Noregsstrendur þegar fyrstu verðlaun unnust í lokaðri samkeppni um íþrótta- og menningarmiðstöð í skerjagarðinum við Bergen í góðu samstarfi við arkitekta Batteríisins og Cubus í Bergen. Verkið fer í frekari hönnun í ársbyrjun 2011.

Við þökkum samstarfsaðilum og verkkkaupum í gegnum tíðina gefandi samstarf og auðsýnt traust og trúum því að framtíðin sé björt þó fyrir hlutunum sé haft þessa dagana. Vonumst til að eiga áfram með ykkur samleið við að bæta umhverfi og mannlíf.

Landslag verður lokað milli jóla og nýárs en við mætum brött til leiks 3. janúar.

Starfsfólk Landslags óskar ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Skoðið gallerí…